Á sandi
:,: Á sandi byggði heimskur maður hús :,:
og þá kom steypiregn.
:,: Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx :,:
og húsið á sandinum féll.
:,: Á bjargi byggði hygginn maður hús :,:
og þá kom steypiregn.
:,: Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx :,:
og húsið á bjargi stóð fast.
Á íslensku má alltaf finna svar
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´og sorg,
um gamalt líf og nýtt ís veit og borg.
Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn – nema ég og þú.
Á Sprengisandi
Lag: Sigvaldi Kaldalóns
Ljóð: Grímur Thomsen
Ríðum, ríðum rekum yfir sandinn,
rennur sól á bak við Arnarfell,
hér á reiki er margur óhreinn andinn,
úr því fer að skyggja á jökulsvell.
:,: Drottinn leiði drösulinn minn
drjúgur verður síðasti áfanginn :,:
Þey þey þey þey þaut í holti tófa,
þurran vill hún blóði væta góm,
eða líka einhver var að hóa
undarlega digrum karlaróm.
:,: Útilegumenn í Ódáðahraun
eru kannski að smala fé á laun :,:
Ríðum, ríðum rekum yfir sandinn,
rökkrið er að síga á Herðubreið.
Álfadrottning er að beisla gandinn,
ekki er gott að verða á hennar leið.
:,: Vænsta klárinn vildi ég gefa til
að vera komin ofan í Kiðagil :,:
Álfareiðin
Stóð ég úti í tungsljósi, stóð ég út við skóg,
stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.
Blésu þeir á sönglúðra, og bar þá að mér fljótt,
og bjöllurnar gullu á heiðskírri nótt.
Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund,
hornin jóa gullroðnu blika við lund,
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.
Heilsaði hún mér drottningin og hló að mér um leið,
hló að mér og hleypti hestinum á skeið.
Var það út af ástinni ungu, sem ég ber?
Eða var það feigðin, sem kallaði að mér?
Ánamaðkur, kakkalakki og kónguló
Ég fann lítinn ánamaðk í dag
ég fann rauðan ánamaðk í dag
ég fann skrýtinn ánamaðk í dag.
Tra la la la la la la la lei.
Ég fann svartan kakkalakka í dag,
ég fann lítinn kakkalakka í dag
ég fann svartan kakkalakka í dag,
Tra la la la la la la la lei.
Og þegar kakkalakkinn hló
þá fengu allir nýja skó.
Og þegar haninn galaði:
Gaggala, gaggala, gó
þá fór hann Gvendur út á sjó.
Ég fann bláa könguló í dag,
könguló með fjólubláan staf,
ég fann stóra könguló í dag.
Tra la la la la la la la lei.
Þegar köngulóin hló,
þá fékk hún átta nýja skó.
Og þegar haninn galaði:
Gaggala, gaggala, gó
þá fór hann Gvendur út á sjó
Ég fann rauðan orm í Reykjavík,
ég fann gulan orm í Keflavík.
Ég fann litla ormamaðka´ í dag.
Tra la la la la la la la lei.
Og þegar ormapabbinn hló,
þá fengu allir nýja skó
Og þegar haninn galaði :
Gaggala, gaggala, gó
þá fór hann Gvendur út á sjó.