Útinám er einn af hornsteinum skólastarfsins í Austurkór. Rannsóknir hafa sýnt að í útinámi fer fram virkt nám þar sem börnin fá tækifæri til að nota öll skynfærin sín til að nema. Nánasta umhverfi leikskólans er notað til að efla nám barnanna og umhverfið nýtt sem þriðji kennarinn.

Skólinn okkar er staðsettur við bæjarmörkin í nálægð við ósnortna náttúruna. Við höfum aðgengi að útinámssvæði í Magnúsarlundi, hesthúsum í nágrenni okkar og holt og móa allt í kring. 

Í Austurkór er markvisst útinám og kallast það ævintýraferðir. Í ævintýraferðum upplifa börnin náttúruna og auka hreyfigetu sína með því að hreyfa sig og ögra sér í margs konar umhverfi. Aukin hreyfing leiðir af sér aukið sjálfstraust, aukna félagsfærni og einbeitingu. Líkamlega og andlega hraustari einstaklingar eru tilbúnari til að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar.

Allar deildar fara í vikulegar ævintýraferðir þar sem markmiðið er að tengja það nám sem fer fram inn í leikskólanum við umhverfið. Fyrst og fremst eiga ævintýraferðirnar að vera skemmtilegar, fræðandi og styrkjandi. Hlutverk kennara í ævintýraferðum er að kveikja neista og viðhalda áhuga barnanna á að upplifa og njóta.

Ævintýraferðir er ein þeirra leiða sem hægt að nota til að auka skilning á og kenna góða umgengni við umhverfið.  Börnin læra að bera virðingu fyrir þeim hættum sem geta leynst í umhverfinu undir öruggri handleiðslu kennara. Þau verða einnig meðvitaðri um þau tækifæri sem leynast í umhverfinu. Lögð er inn umhverfismenntun til dæmis með því að týna rusl og reyna að halda umhverfinu hreinu.