Sérkennsla
Þó að öll börn eigi meira sameiginlegt en það sem aðgreinir þau, þá eru þau samt sem áður í eðli sínu ólík og hafa misjafna getu, þroska og reynslu. Taka þarf tillit til þarfa hvers barns svo að það fái notið sín í hóp annarra barna á eigin forsendum. Sérkennsla er viðbótarúrræði handa þeim börnum sem vegna aðstæðna sinna þurfa sérhæfðar leiðir til að þroskast og læra í samfélagi við önnur börn í skólanum. Ef þörf er á sérkennslu er horft til styrkleika hvers og eins og unnið út frá þeim. Við leggjum áherslu á góð foreldrasamskipti og að ákvarðanir og áætlanir séu gerðar í góðri samvinnu við foreldra.
Ef grunur leikur á að barn þarfnist sérkennslu er fylgst sérstaklega með því og í framhaldi af því er í samráði við foreldra gerðar ráðstafanir um hvaða vinna fer í gang með barninu. Ef barn þarfnast nánari athugunar er það í umsjón sérkennslustjóra og deildastjóra að óska þess að fá aðstoð frá utanaðkomandi sérfræðingum s.s sálfræðing, iðjuþjálfa eða talmeinafræðing.
Einstaklingsnámsskrár eru unnar eftir niðurstöðum úr prófum frá hinum ýmsu sérfræðingum í samráði við deildastjóra og foreldra og eru þær endurmetnar tvisvar til þrisvar yfir skólaárið. Sérkennslustjóri sér um að upplýsingar um einstaklinga fari á milli skólastiga í samráði við foreldra.
Skimunartæki
Tveir skimunarlistar eru lagðir fyrir öll börn í Austurkór. EFI-2 er lagður fyrir öll börn á fjórða aldursári og Hljóm-2 er lagður fyrir elstu börnin.
EFI-2
EFI–2 málþroskaskimun er ætlað að finna þau börn sem víkja mest frá meðalfærni jafnaldra í málskilningi og máltjáningu. Börn með frávik frá eðlilegum málþroska þurfa alls ekki að vera sein í hreyfiþroska, félagsþroska og vitsmunaþroska, því þarf að meta málþroska sérstaklega.
EFI-2 reynir bæði á málskilning og máltjáningu. Með málskilningsþætti er kannaður t.d. skilningur á stærða- og fjöldahugtökum, litaheitum, óyrtum orðaforða og yfirhugtökum. Einnig skilningur á neitunarsetningum og setningum sem tengjast tímaröð. Áhrif vinnsluminnis eru líka könnuð. Með máltjáningarþætti er kannaður t.d. almennur virkur orðaforði, rétt notkun talna- og litaheita, setninga- og beygingarmyndun (nt, þt, et, ft), rökvísi og samhengi í tjáskiptum. Allir þættir EFI–2 reyna jafnframt á einbeitingu og félagslega færni í samskiptum en þessir þættir geta haft áhrif á niðurstöður.
EFI-2 gefur markvissar niðurstöður til að meta betur en áður var hægt hvort þörf er á frekari greiningu fagaðila. Aðeins þeir leikskólakennarar eða sérhæft starfsfólk leikskóla sem sótt hafa námskeið í fyrirlögn og túlkun EFI–2 málþroskaskimunar fá leyfi til að nota EFI–2.
HLJÓM-2
Á hverju ári er HLJÓM-2 próf lagt fyrir elstu börnin. HLJÓM-2 er skimunarpróf í leikjaformi sem metur færni í hljóðkerfisvitund elstu barna í leikskóla. Á þessum aldri fara börn að leika sér að tungumálinu og er leikurinn undanfari lestrarnáms. Niðurstöður HLJÓM-2 hafa forspárgildi varðandi lestrarnám barna og geta gefið marktækar vísbendingar um hvaða börn eru í áhættu fyrir lestrarörðugleika síðar. Einungis fagfólki með tilskilin réttindi, er heimilt að leggja skimunina fyrir. Þættirnir (leikirnir) sem lagðir eru fyrir tengjast: rími, samstöfun, hljóðgreiningu, samsettum orðum, margræðum orðum, orðhlutaeyðingu og hljóðtengingu. Fyrirlögnin tekur u.þ.b. 20-30 mínútur með hverju barni.
Við nýtum niðurstöður HLJÓM-2 til að átta okkur betur á hvar styrkleikar og veikleikar barnanna liggja varðandi þróun hljóðkerfisvitundar. Með því getum við gripið inn í ef þurfa þykir og boðið upp á markvissa vinnu fyrir þau börn sem ekki ná meðalfærni við skimun.