Íslensku málhljóðin
Í Austurkór er unnið með bókina Lubbi finnur málbein en hún tengist læsi og málörvun. Hugmyndasmiðirnir á bak við Lubba, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru talmeinafræðingar sem hafa áralanga reynslu af talþjálfun barna. Námsefnið býður upp á nýja framsetningu á íslensku málhljóðunum og leggur góðan grunn að lestrarnámi auk þess sem það stuðlar að betri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð.
Lubbi er íslenskur fjárhundur sem býður öllum börnum í ævintýraferð um Ísland í leit af 35 málbeinum sem hjálpa honum að læra íslensku málhljóðin. Málhljóðin líta út eins og bein sem Lubbi nagar enda elska hundar bein. Smátt og smátt lærir hann að tala. Lubbi þarf þó góða aðstoð við að læra málhljóðin og hjálpa krakkarnir honum með söng og hreyfingum. Í hverri viku er eitt málhljóð tekið fyrir ásamt sögu sem tengist þessu málhljóði og ferðalagi Lubba og einnig er hreyfing sem börnin læra sem hjálpar að festa nýja málhljóðið í minnið. Hér er hægt að fræðast meira um bókina Lubbi finnur málbein.