Velkomin í leikskólann
Hér geta foreldrar nálgast ýmsar upplýsingar um leikskólastarfið.
Foreldrasamstarf
Foreldrasamstarf er afar mikilvægt og til að gott samstarf sé á milli heimilis og skóla þarf að skapa tengsl sem einkennast af trausti, virðingu og hlustun. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að í Austurkór ríki heimilislegt andrúmsloft. Við teljum að þannig andrúmsloft skapist með trausti, virðingu, samtali og sameiginlegum ákvörðunum um starf skólans.
Við í Austurkór viljum skólasamfélag sem einkennist af þessum þáttum. Við vitum að foreldrar þekkja börnin sín best og að mesti árangurinn næst þegar skóli og heimili vinna saman að velferð barnsins. Við viljum að foreldrar komi að þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hverju sinni og það sé gefinn tími og rými til þess að sjónarmið þeirra komi fram s.s. í skólanámskrárgerð og skipulagsvinnu skólans.
Við óskum eftir hugmyndum og umræðum frá öllum þeim sem koma að skólasamfélaginu - börnum, foreldrum og starfsfólki. Því Austurkór er skólinn okkar. Til að rödd foreldra heyrist notum við ýmsar aðferðir til samstarfs svo sem óformlegt samstarf (t.d. spjall í fataklefa) og formlegt samstarf (t.d.foreldrasamtöl, fundir, netkannanir og foreldraráð).
Í skólanum er starfandi foreldrafélag og foreldraráð.
Hlutverk foreldrafélagsins er að vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í Austurkór, skipuleggja foreldrastarfið og standa fyrir ýmsum viðburðum sem auðga leikskólalífið. Foreldrafélagið er í góðum samskiptum við stjórnendur og skipuleggja saman ýmsa þætti í skólasamfélaginu.
Hlutverk foreldraráðs er að koma á framfæri skoðunum foreldra varðandi skólastarfið, skipulag og áhersluþætti námsins. Foreldraráð gefur umsagnir um ýmsar áætlanir og hefur áhrif á stefnumótun skólans. Foreldraráð er skipað þremur foreldrum ásamt leikskólastjóra og eru starfsreglur foreldraráðsins aðgengilegar á heimasíðu skólans.
Hér má lesa um foreldrastefnu Austurkórs