Starfsaðferðir

Austurkór er lifandi leikskóli í stöðugri þróun þar af leiðandi er skólanámskráin okkar flæðandi. Hún er síbreytileg og tekur mið af því fólki sem er í skólanum hverju sinni, hæfni þeirra og reynslu.

Gildi

Á fyrsta starfsári skólans voru haldnir fundir með starfsfólki og foreldrum með þjóðfundarsniði. Það var gert með því markmiði að finna í sameiningu áhersluþætti skólastarfsins í Austurkór. Gengið var út frá hugmyndinni um hvaða færni börnin hafa öðlast að loknu námi í Austurkór. Við viljum að börnin sem útskrifast úr skólanum hafi öðlast færni í að vinna í hóp, hlusta á aðra, sýna virðingu og samhyggð. Að börnin séu meðvituð um að þau séu virkir þegnar í þjóðfélaginu og hafi rödd sem heyrist. Þau séu atorkusöm og hafi úthald, seiglu og trú á eigin getu. Afrakstur þessarar vinnu eru gildi Austurkórs. Við skiptum skólaárinu upp í lotur og eru gildin yfirheiti þeirra.

 

Barnssýn

Í Austurkór horfum við á börnin sem hæfileikaríka einstaklinga og viljum vinna með styrkleika þeirra á margvíslegan og fjölbreyttan hátt. Við lítum á að börn séu í eðli sínu skapandi og að skólastarfið eigi að veita fjölbreytt tækifæri til sköpunar með margvíslegum efnivið. Austurkór er lærdómssamfélag þar sem hver einstaklingur innan samfélagsins er mikilvægur og því þýðingarmikið að rödd hvers og eins heyrist. Þessi samfélagssýn endurspeglast í merki skólans sem er hús byggt úr púslum. Hvert okkar er eitt púsl í heildarmynd Austurkór.

Hugmyndafræði

Skólastarfið í Austurkór er unnið í samræmi við Aðalnámskrá leikskóla og byggir á félagslegri hugsmíðahyggju. Við horfum til kenninga Vygotskys um nám og þroska barna og þeirrar hugmyndafræði sem birtist í skólastarfi Reggio Emilia á Ítalíu.

Megin innihald kenninga Vygotskys snýr að því hvernig þróun skilnings og færni skapast hjá börnum í félagi við aðra. Hann taldi þekkingu barna byggja á persónulegri reynslu og að persónuleg reynsla og félagsleg reynsla væru óaðskiljanleg. Reynsluheimur barna mótast af fjölskyldum þeirra, samfélaginu sem þau búa í, félagslegri stöðu þeirra, menntun og menningu. Skilningur þeirra á heiminum kemur frá gildum foreldra þeirra og daglegum samskiptum við önnur börn. Vygotsky taldi að nám barna færi að miklu leyti fram í gegnum leik. Því er eitt af meginhlutverkum leikskóla að veita börnum umhverfi þar sem þau geta byggt þekkingu sína og reynsluheim í gegnum samskipti við aðra og umhverfið.

Vygotsky talaði um svæði mögulegs þroska (e. zone of proximal development). Svæði mögulegs þroska er sú færni  sem er á milli þess sem barn getur/skilur án aðstoðar og þess sem barn getur/skilur með hjálp kennara eða barna sem eru komin lengra í þroska. Samkvæmt Vygotsky er hlutverk kennarans að sjá barninu fyrir verkefnum sem liggja innan svæðis mögulegs þroska og fylgja þeim eftir með leiðbeiningum eða stuðningi.

Auk þess að horfa til kenninga Vygotskys horfum við einnig til uppeldissýnar leikskólastarfsins í Reggio Emilia. Í Reggio Emilia á Ítalíu hefur þróast einstök starfsaðferð þar sem meginmarkmiðið er að hvetja börnin til þess að nota öll skilningarvit sín við að nema. Þar þróaðist sú barnssýn að börn væru sterk og hæf og ættu skilið að borin sé virðing fyrir þeim. Uppeldissýnin tekur mið af þeim stað og því samfélagi sem hún er iðkuð í. Austurkór er í Kópavogi og endurspeglast sú staðreynd í menningu skólans. Við nýtum okkur margvíslegar aðferðir og kennslugögn í skólastarfinu til að námsupplifunin og uppgötvunin sé sem fjölbreyttust og hver og einn geti nýtt skynjun sína á margvíslegan hátt. Í starfsaðferðunum eru notaðar aðferðir vísindamanna. Að staldra við, kanna, skoða, rannsaka og upplifa, spyrja spurninga og leita svara við þeim. Hlutverk kennara er að vera virkur í rannsóknarvinnu með börnunum, grípa hugmyndir barnanna og leiða þau áfram í námsferlinu. Mikilvægast er að skoða ferli sköpunarinnar en ekki einungis útkomuna og þess vegna skipta uppeldisfræðilegar skráningar miklu máli í skólastarfi í anda Reggio Emilia. 

Líkt og listamenn fá hugmyndir og innblástur úr umhverfinu lítum við svo á að umhverfið vegi stóran þátt í að skapa umræður, kveikja hugmyndir og efla fagurþroska. Börn eiga skilið að umhverfi þeirra sé áhugavekjandi og fallegt. Í Austurkór eru rými opin og síbreytileg og ýta þannig undir að börn fái tækifæri til að tjá sig á hundrað vegu.

Aldursblöndun

Við trúum því að aldurblöndun á deildum hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska barna og það gefur börnunum færi á fjölbreyttari félagslegri skynjun en í aldurshreinum hópum. Aldursblöndun á deildum gefur börnum fleiri tækifæri til þátttöku og fjölbreyttari hlutverk innan hópsins og ýtir undir forystuhæfileika eldri barna. Eldri börnin eru fyrirmyndir yngri barnanna og geta kennt þeim margt. Það eflir yngri börnin og eykur færni þeirra í daglegu starfi og einnig skapar það flóknari leikaðstæður fyrir yngri börnin sem örvar leik þeirra til þátttöku í hlutverkaleik.

Sérkennsla

Þó að öll börn eigi meira sameiginlegt en það sem aðgreinir þau, þá eru þau samt sem áður í eðli sínu ólík og hafa misjafnar þarfir. Ef þörf er á sérkennslu er horft til styrkleika hvers og eins og unnið út frá þeim. Sérkennslan er unnin í ákveðnum teymum sem sérkennslustjóri hefur yfirumsjón með. Við teljum að með teymisvinnu takist okkur betur og markvissar að fylgja eftir hverju barni fyrir sig. Við leggjum áherslu á góð foreldrasamskipti og að allar ákvarðanir og áætlanir séu gerðar í góðri samvinnu við foreldra barnanna.

Dagskipulag

Í Austurkór teljum við mikilvægt að börn kynnist lýðræði og grunnforsendum þess frá unga aldri. Því höfum við þróað starfsaðferð í anda lýðræðis sem við köllum Þingstörf. Um er að ræða annars vegar krakkaþing og hins vegar kennaraþing. Í gegnum þingstörf eflum við sjálfstæði barnanna og gefum þeim færi á að hafa áhrif á eigið nám og starfið í leikskólanum.  Starfsaðferðin byggir á þeirri sýn að börn séu getumikil og hafi hæfileika til að hafa sjálf jákvæð áhrif á eigið líf sem þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Í krakkaþingum hafa börnin bein áhrif á starfið með því að ákveða sjálf þau viðfangsefni sem í boði eru en í kennaraþingum eru það kennarar skólans sem bjóða upp á viðfangsefni út frá áhuga barnanna byggð á eigin færni og getu. Börnin kjósa síðan það viðfangsefni sem höfðar mest til þeirra.

Dagskipulagið er flæðandi í Austurkór, þ.e. það tekur mið af þörfum þess fólks sem er í skólanum hverju sinni. Þannig eru matartímar einnig flæðandi en við erum með matsal þar sem matur er borinn fram. Lögð er áhersla á valdeflingu barnanna, að efla trú þeirra að eigin getu og er það gert til dæmis með því að börnin geti sjálf kosið hvenær þau vilja borða á meðan matur er borinn fram. Þau börn sem ekki eru að borða hverju sinni geta þá haldið áfram í leik með félögum sínum  inni á deildum.

Lykilpersónur

Í stórum barnahópi er mikilvægt að efla og viðhalda tengslum barna og kennara. Til að ná því fram eru kennarar lykilpersónur fyrir ákveðin börn í hópnum. Hlutverk lykilpersóna er fyrst og fremst  tengslamyndun en að auki ber hún ábyrgð á að fylgjast með þroska og aðbúnaði barnanna.