Jólasmiðja Austurkórs

Nú styttist í jólin og þessa dagana erum við í Austurkór á fullu í jólaundirbúningi. Það er verið að skreyta deildarnar, hlusta á jólasögur, syngja jólalög og búa til jólagjafir.
Jólagjafirnar eru gerðar í jólasmiðjunni okkar en þar fá börnin frelsi til að búa til jólagjafir fyrir foreldra og forráðamenn. Í ár breyttum við matsalnum í jólasmiðju og koma börnin þangað inn með kennara og fá að láta hugmyndaflugið ráða við gerð jólagjafanna. Gjöfin er því beint frá barninu sjálfu.
Í jólasmiðjunni er að finna ógrynni af spennandi efnivið sem börnin geta notað í gjafirnar. Einnig setjum við upp jólaskraut, jólamyndir og höfum jólatónlist til að mynda kósý stemmningu. Þannig verður jólasmiðjan notaleg upplifun í aðventunni.
Með hverjum jólapakka fylgir skráning þar sem kennarinn segir frá í máli og myndum frá ferlinu á gjöfinni. Þessi skráning er dýrmæt innsýn inn í starfið og hugarheim barnsins. Börnin fá svo að búa til jólapappír og jólakort inni á sinni deild. Það er því óhætt að segja að mikil vinna, gleði og ást fer í hverja gjöf.